Gleðilegan laugardag.
Kunningi minn frá Íran sagði mér einu sinni sögu frá heimalandi sínu sem setið hefur í mér æ síðan. Sem nemandi í eðlisfræði við háskólann í Tehran á níunda áratugnum varð hann var við að framgangur stúdenta við útskrift hélst ekki í hendur við frammistöðu í námi heldur hversu mikla hollustu þeir sýndu stjórnvöldum.
Fullir gremju fylgdust þeir sem ekki voru í klíkunni með embættismannakerfi borgarinnar fyllast af misvanhæfum flokksgæðingum. Afleiðingar ráðningarstefnunnar virtust kunningja mínum þó í fyrstu ekki tiltakanlegar. En svo var það einn daginn að ráðamenn og já-menn þeirra mættu í hverfið hans og vildu byggja tjörn. „Er það nokkuð mál?“ spurðu valdhafar. „Ekkert mál,“ svöruðu já-mennirnir, verkfræðingar borgarinnar sem komu að vörmu spori brunandi með fylgispektina og skurðgröfur að vopni og hófu að grafa holu.
Verkið sóttist þeim vel og þegar holan hafði náð nokkurri dýpt var dælt í hana vatni. Íbúar hverfisins sem fylgst höfðu efablandnir með framkvæmdunum vörpuðu öndinni léttar. Þeir höfðu eignast þessa fallegu tjörn.
En svo fór að rigna. Sakleysislegur punt-pollurinn flæddi yfir bakka sína og breyttist í voveiflegt fljót sem streymdi hvítfyssandi um götur og stræti.
Fimmtán ár
Í ár eru fimmtán ár liðin frá því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 kom út.
Íslenskt samfélag virðist þó lítið hafa lært af skýrslunni því enn á ný rís upp sú krafa að landsmenn gerist gagnrýnislausir já-menn heillar atvinnugreinar.
Pistill vikunnar í Heimildinni er áminning um hætturnar sem stafa af já-mönnum.
PISTIL VIKUNNAR MÁ LESA HÉR:
ÞANNIG TÝNIST TÍMINN
Í pistli síðustu viku fjallaði ég um það hvernig ellefu ára dóttir mín og vinkonur hennar eru duglegar að kynna mæðrum sínum nýjustu strauma og stefnur á sviði dægurtónlistar.
Aulaháttur mannsins á nýjum tímum
Þær láta sér þó ekki nægja að fræða okkur um tónlist. Við mæðurnar vitum nú einnig allt um nýjustu tískuna.
Í vikunni greindu stelpurnar okkur af ákafa frá nýrri nagla-tísku sem kallast „duck nails“. Þær létu okkur googla mynd af fyrirbærinu. Við blasti sjón sem mun valda mér martröðum – ég hef alltaf haft fóbíu fyrir naglalakki og öðru naglaskrauti.
Naglaspjallið minnti mig á annað samtal við dóttur mína um neglur.
Hún var fjögurra ára. Ég sat í stofunni og klippti neglurnar á yngri bróður hennar þegar hún hlammaði sér á sófann og spurði: „Hvers vegna erum við með neglur?“
Þarna var tækifærið. Það var komið að mér að miðla af þekkingu minni; vera sú fyrirmyndarmóðir sem ég hafði alltaf verið á leiðinni að verða; foreldrið sem föndraði dúkkukastala með barninu úr tómum jógúrtdollum og íspinnaspýtum í stað þess að henda í það nýjustu Barbie höllinni; foreldri sem faldi ekki batteríin úr syngjandi leikfangavélmenninu sem börnin dýrkuðu en saug lífsviljann úr fullorðnum; foreldrið sem skutlaði barninu í ballett og Suzuki-tónlistartíma eftir skóla í stað þess að rétta því Netflix fjarstýringuna.
Hvers vegna erum við með neglur? Mér fannst framtíðar fyrirætlanir þegar hafa afmáð syndir fortíðar þegar ég svaraði: „Því einu sinni vorum við dýr.“
Ég hélt að mér hefði tekist vel upp við að miðla dótturinni þróunarkenningunni. En dramb er falli næst.
Ég var á leiðinni út í ruslageymslu með stóran pappakassa þegar hún birtist eins og árvakur villiköttur úr launsátri.
„Átti ég heima í þessum kassa þegar ég var dýr?“
„Ha, nei, sko þú varst ekki dýr.“
„En þú sagðir að við hefðum einu sinni verið dýr.“
„Það voru forfeður okkar sem voru apar.“
„Er amma api?“
„Nei.“
„En afi?“
„Nei.“
„Ertu með svona mikið hár á fótunum af því að þú ert api?“
Ég ákvað að horfast í augu við staðreyndir.
„Gjörðu svo vel, hérna er Netflix fjarstýringin.“
Góða helgi.
Mynd af rannsóknarskýrslu: Með BiT and Birna Guðmundsdóttir - eigin skrá, CC BY 3.0 (tengill)
😂😂😂