Gleðilegan laugardag.
Ár er liðið frá því að ég flutti í nýja íbúð. Í stórborg eins og London er skápa- og geymslupláss af skornum skammti. Þegar ég pakkaði eigum mínum ofan í kassa lagði ég mig því fram um að henda sem mestu.
Það líður varla sú vika sem ég sé ekki eftir einhverju sem ég lét gossa. Eftirsjáin eftir veraldlegum hlutum bliknar þó í samanburði við sársaukann við að henda huglægum eignum á hugana.
Ósungin hetja
Bókmenntahátíð í Reykjavík var haldin í síðustu viku. Á hátíðinni böðuðu rithöfundar sig í sviðsljósinu. En á bak við hvern rithöfund stendur ósungin hetja sem fær sjaldan þakkir fyrir það þrekvirki sem hún vinnur á degi hverjum.
„Kill your darlings“ – banaðu elskunum þínum – er eitt besta ráð sem ég hef fengið sem rithöfundur.
Það sem kann að virðast rithöfundinum hin fegursta málsgrein, skreytt tignarlegum samlíkingum og glæstum myndhverfingum, er oftar en ekki einmitt það sem má missa sín í texta.
Ég sit nú og fínpússa bókarhandrit undir leiðsögn eins dásamlegasta ritstjóra sem ég hef komist í kynni við. En ég neita því ekki að það er kvalafullt að henda mínum bestu verkum í rafræna ruslafötu.
Lesendur standa hins vegar í þakkarskuld við ritstjóra heimsins sem stroka út óþarfa samlíkingar, söguþræði á villigötum, persónur og prjál. Þótt kápu bókar prýði aðeins eitt höfundarnafn er bók sjaldan eins manns verk.
Einvígi við bókagagnrýnanda
Starf ritstjórans getur þó verið vanþakklátt.
Þegar breska bókaforlagið John Murray fagnaði 250 ára afmæli sínu fyrir nokkrum árum kom út bók með bréfum sem forleggjaranum hafði borist frá höfundum sínum í aldanna rás.
Við blasti að það er vandasamt verk að halda mislyndum höfundum góðum:
Jane Austen skrifaði útgefandanum og sagðist „mjög vonsvikin yfir ... töfum hjá prentaranum.“
William Wordsworth hellti sér yfir forleggjarann þegar honum fannst hann ekki svara bréfum sínum nógu hratt og sakaði hann um að telja sig „of mikið fyrirmenni til að sinna öðrum en hirð konungs, aðalsmönnum og rithöfundum sem væru í tísku.“
David Livingstone var svo óánægður með teikningu af ljóni í bók sinni að hann húðskammaði útgefandann og sagði að „allir þeir sem vita hvernig ljón lítur út munu deyja úr hlátri.“
Þegar ritstjóri lagði til breytingar á skrifum Byrons lávarðar bölsótaðist hann yfir duttlungum „almenningsálitsins“ og „yfirlæti Englendinga“.
Charles Darwin mislíkaði gagnrýni um Uppruna tegundanna: „Þessir mætu menn halda að þeir geti skrifað bókardóma án þess að vita skapaðan hlut um innihald bókarinnar sem um ræðir.“
William Makepeace Thackeray þurfti að biðjast afsökunar á drykkjulátunum í sér í bréfi.
James Hogg kvartaði yfir því að hann væri svo blankur að hann ætti ekki fyrir jólagæs.
Sonur Arthurs Conan Doyle, höfundar sagnanna um Sherlock Holmes, var svo reiður yfir ummælum sem bókagagnrýnandi lét falla um föður sinn að hann krafðist þess að útgefandann skipulegði einvígi milli sín og gagnrýnandans þar sem málið yrði útkljáð.
Ég lofa engu um að heimta ekki að ritsjórinn minn góði skipuleggi fyrir mig einvígi þegar bókin mín kemur út um jólin. En þangað til segi ég bara: Takk.
PISTILL VIKUNNAR
Rithöfundar stunda aðeins óeiginleg dráp. Í pistli vikunnar í Heimildinni fjalla ég hins vegar um bókstaflega morðhunda.
PISTILINN MÁ LESA HÉR:
„Að skrifa án þess að endurskoða er bókmenntalega jafngildi þess að arka glaðlega að heiman á nærfötunum.“ – Patricia Fuller, rithöfundur.
Góða helgi!
Tek undir með síðasta ræðumanni: "outtakes" skjal í stað ruslafötu! Elskurnar gætu einfaldlega átt heima í öðru verki. ✨
Allt er þetta hluti af dramanu. En við vitum að þú ert engin dramadrottning. :)