Trump sprengdi upp fleira en kjarnorkustöðvar í Íran
Og fyrir þau sem eru komin með nóg af heimsmálunum: Tuttugu bækur til að taka með í bústaðinn.
Þjóðarleiðtogar kepptust við að þakka Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að stöðva áform Írana um að koma sér upp kjarnorkuvopnum á leiðtogafundi NATO sem fram fór í vikunni. Enginn þeirra vakti hins vegar máls á því að það var Donald Trump sjálfur sem hafði á fyrra kjörtímabili sínu „sprengt upp“ fjölþjóðlegt kjarnorkusamkomulag við Íran, sem haldið hafði kjarnorkuvánni í skefjum.
Er það ekki í fyrsta sinn sem leiðtogar keppast við að þakka Trump fyrir að bæta skaða sem hann olli sjálfur.
Í maí gerði Trump viðskiptasamning við Breta. Þótt Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, segði daginn „frábæran“ og samninginn „sögulegan“ um leið og hann smjaðraði fyrir forsetanum bætti samningurinn aðeins hluta þess skaða sem innflutningstollar Trump höfðu valdið Bretum. Skopmyndateiknari dagblaðsins The Times fangaði gjörninginn svo:
PISTILL VIKUNNAR
Þingkonunni Rósu Guðbjartsdóttur blöskraði framganga mótmælenda sem veifuðu palestínska fánanum á Austurvelli 17. júní síðastliðinn. Hún kvað það „óboðlegt“ að hópar fólks kæmu saman á þessum degi við hátíðarhöld við Alþingishúsið og veifuðu „fána annars lands“ og hrópaði „ókvæðisorð að ráðamönnum og öðrum viðstöddum.“ Hún sagði mótmælendur hafa sýnt þjóðhátíðardeginum og þjóðfána Íslendinga „mikla vanvirðingu“ og spurði: „Eigum við bara að láta slíkt viðgangast?“
Í pistli vikunnar í Heimildinni leitast ég við að svara þeirri spurningu.
PISTIL VIKUNNAR MÁ LESA HÉR:
Eigum við bara að láta slíkt viðgangast?
TUTTUGU BESTU BÆKURNAR TIL AÐ TAKA MEÐ Í BÚSTAÐINN
Í síðasta fréttabréfi birti ég lista yfir tuttugu bestu bækurnar til að lesa við sundlaugarbakkann. Hér fylgja tuttugu bestu bækurnar til að taka með í bústaðinn.
1
Sextíu kíló af sólskini
Hallgrímur Helgason 2018
Tíunda bók Hallgríms Helgasonar gerist við upphaf 20. aldar þegar síldin og nútíminn hefja innreið sína í íslenskt sjávarþorp. „Magnaður texti og rannsókn á þjóðareðli, þar sem veröld sem var er lýst af miklu listfengi,“ ritaði Ásgeir H. Ingólfsson, bókagagnrýnandi. Vakti bókin með mörgum hugrenningatengsl við Laxness. Það skyldi þó ekki vera að þarna fari okkar næsta Nóbelsskáld?
2
Afleggjarinn
Auður Ava Ólafsdóttir 2007
„Eins og gullaldarmálverk“ sagði í gagnrýni danska dagblaðsins Politiken.
3
ÞÞ – Í fátæktarlandi
Pétur Gunnarsson 2007
„Hrikalega flott bók. Pétur eins og hann gerist bestur. Þórbergur eins og hann gerðist verstur,“ sagði Þröstur Helgason, fjölmiðlamaður og útgefandi, um ævisögu Þórbergs Þórðarsonar. Seinna bindið, ÞÞ – Í forheimskunarlandi, sem kom út árið 2009 er einnig nauðsynlegt að eiga í bókaskápnum.
4
Móðurást: Oddný
Kristín Ómarsdóttir 2023
Skáldsaga byggð á bernsku langömmu höfundar sem fædd var árið 1863 og ólst upp á stóru heimili í Bræðratungu. „Móðurfólk mitt hélt ekki dagbækur sem ég veit af, það afmáði ummerki, gekk svo snyrtilega um að það skildi ekki eftir sig efniskennd spor. Að skrifa söguna eru því drottinssvik við móðurfólk mitt, einnig skuld við það og þökk.“ Framhald bókarinnar, Móðurást: Draumþing, kom út um síðustu jól og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin.
5
Sumarljós og svo kemur nóttin
Jón Kalman Stefánsson 2005
Jón Kalman er margverðlaunaður fyrir ljóðrænar skáldsögur sínar. Hann ætti þó einnig skilið verðlaun fyrir bestu bókatitlana. Fiskarnir hafa enga fætur er til að mynda titill sem verður seint toppaður.
6
Ból
Steinunn Sigurðardóttir 2023
Steinunn Sigurðardóttir hefur verið í fremstu röð íslenskra skálda og rithöfunda í meira en hálfa öld. Ból hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í fyrra. Steinunni er svo sannarlega ekki farið að fatast flugið.
7
Mánasteinn – Drengurinn sem aldrei var til
Sjón 2013
Árið er 1918. Ungur drengur elst upp í Reykjavík á tímum spænsku veikinnar og Kötlugossins og tekst á við eigin sjálfsmynd í skugga hamfara. Skyldulesning.
8
Í skugga trjánna
Guðrún Eva Mínervudóttur 2024
Smásagnasafn Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Á meðan hann horfir á þig ertu María mey, sem kom út árið 1998 vakti mikla athygli. Síðan er liðinn rúmur aldarfjórðungur og Guðrún Eva hefur ekki enn slegið feilnótu.
9
Draumalandið – Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð
Andri Snær Magnason 2006
Listilega skrifuð ádeila á stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda. En eins og oft vill verða þegar sjálfshjálparbækur eiga í hlut orkar tvímælist hvort bókinni hafi tekist að lækna sjúklinginn.
10
Snerting
Ólafur Jóhann Ólafsson 2020
Snerting var söluhæsta bókin fyrir jólin 2020. Kvikmynd, sem byggð er á bókinni í leikstjórn Baltasars Kormáks, var framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna fyrr á árinu.
11
Halldór Laxness – Ævisaga
Halldór Guðmundsson 2004
Ef aðeins fleiri ævisögur væru svona skemmtilegar aflestrar.
12
Minnisbók
Sigurður Pálsson 2007
Endurminningar höfundar frá því að hann dvaldi í Frakklandi á árunum 1967-1982. Skyldulesning fyrir „frankófíla“ og Parísardýrkendur.
13
Saknaðarilmur
Elísabet Jökulsdóttir 2022
Þegar fullorðin dóttir missir móður sína kviknar söknuður eftir því sem var – og kannski því sem aldrei varð.
14
Valeyrarvalsinn
Guðmundur Andri Thorsson 2011
Sextán smásögur sem allar gerast á sömu tveimur mínútunum í litlu þorpi.
15
Stríðið mikla 1914-1918 – Þegar siðmenningin fór fjandans til: Íslendingar og heimsstyrjöldin fyrri
Gunnar Þór Bjarnason 2016
Árið 1915 gekk Gunnar Richardsson, nítján ára Íslendingur, í kanadíska herinn svo hann mætti berjast í fyrri heimsstyrjöldinni. Í bréfum til fjölskyldu sinnar heima á Íslandi lýsir Gunnar vígstöðvunum sem ógnvekjandi stað. Verst fannst honum regnið og forin. „Skotgrafirnar eru upp fyrir hné í for og vatni, hvergi staður til að setjast eða leggjast. Forin er um allt, hvergi gras, allt landið tætt af sprengikúlum, stráð dauðra manna búkum.“ Gunnar fékk stundum senda pakka að heiman með alls kyns kræsingum og þörfum hlutum. Þakklátastur var Gunnar fyrir „þann besta hlut sem við gátum óskað, þurra sokka.“ Hann sagði íslensku ullarsokkana miklu betri en sokkana sem herinn skaffaði. Nærri 400 hermenn fæddir á Íslandi börðust í skotgröfum heimsstyrjaldarinnar fyrri. Stríðið mikla er stór og glæsileg bók með myndum, frábær fyrir leika sem lærða.
16
Blokkin á heimsenda
Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir 2020
Unglingabók á heimsmælikvarða.
17
Reisubók Guðríðar Símonardóttur – Skáldsaga byggð á heimildum
Steinunn Jóhannsdóttir 2001
Söguleg skáldsaga um Tyrkjaránið.
18
Frelsi
Linda Vilhjálmsdóttir 2015
„Linda er skarpur þjóðfélagsrýnir … Ljóð Lindu veita enga líkn, en þau segja tæpitungulaust af hverju við þjáumst. Og hvetja okkur til að lækna okkur. Umsvifalaust!“ Guðríður Haraldsdóttir, Vikan.
19
Delluferðin
Sigrún Pálsdóttir 2019
Ung íslensk kona með útþrá stingur af til New York um aldamótin 1900. Sigrún Pálsdóttir hlaut bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins fyrir skáldsöguna.
20
Stríðsárin 1938–1945
Páll Baldvin Baldvinsson 2015
Áhugaverð innsýn í stríðsárin í máli og myndum.
Hér í London skellur nú á enn önnur hitabylgjan.
Má ég þá heldur biðja um hið hófsama íslenska sumar.
Góða helgi!
Góður listi, góð hvatning til lestrar
Góð hugmynd hjá þér að ýta bókum að okkur! Ég hef sterklega á tilfinningunni að ekki veiti af. Og mér sýnist staflinn góður, svo langt sem kunnátta mín nær.